Jafnréttisstofa hefur látið setja saman útvarpsþátt um gildi fjölbreyttrar forystu í fyrirtækjum og lífeyrisjóðum í tengslum við verkefnið: Fjölbreytt forysta, sem stutt er af Evrópusjóðnum Progress. Útvarpsþátturinn fór í loftið þann 19. júní sl. í tilefni 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna.

Ísland er annað landið á eftir Noregi sem lögbindur kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Tæp tvö ár eru síðan lögin tóku gildi og hefur konum fjölgað mikið í stjórnum stærri fyrirtækja. Árið 2014 voru konur þriðjungur stjórnarmanna í fyrirtækjum með 50 starfsmenn eða fleiri, til samanburðar við 12,7% árið 2007 og 9,5% árið 1999.

Í þættinum er leitað svara við því hvort kvótalöggjöfin hafi leitt til einhverra breytinga þegar kemur að stjórnarstörfum, vali í stjórnir og viðhorfum til fyrrgreindrar löggjafar. Rætt er við sérfræðinga og fólk í atvinnulífinu og reynslumiklir stjórnarmenn greina frá því sem hefur breyst við stjórnarborðið með tilkomu kvótans auk þess sem þeir ræða forsendur kynjajafnréttis á vinnumarkaði. Umsjón: Edda Jónsdóttir.

Útvarpsþátturinn: http://www.ruv.is/sarpurinn/ras-1/fjolbreytt-forysta-i-atvinnulifinu/20150619