Dr. Auður Arna Arnardóttir er lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík.
Hún hefur ásamt Þresti Olaf Sigurjónssyni, dósent við Háskólann í Reykjavík og tveimur prófessorum við erlenda háskóla skoðað áhrif kynjakvótans á stjórnir fyrirtækja á Íslandi. Auður Arna hélt erindi á morgunverðarfundi í desember 2014, þar sem hún kynnti frumniðurstöður rannsóknarinnar. Fyrirlesturinn er að finna hér.

Um rannsóknina

Alls 260 stjórnarmenn sem skipa 800 stjórnarsæti, svöruðu spurningalista en svörin eru lögð til grundvallar rannsókninni. Einnig voru tekin viðtöl við 11 stjórnarmenn og 11 stjórnarkonur til að afla gagna. Konur voru 41 prósent viðmælenda en karlar 59 prósent.

Auður Arna segir frá niðurstöðum rannsóknarinnar. Meðal þess sem kemur fram er upplifun karla og kvenna í stjórnum af áhrifum löggjafarinnar auk þess sem viðhorf til kynjakvótans voru skoðuð sérstaklega. Hún fjallar um mismunandi viðhorf kynjanna til breytinga á stjórnarháttum samfara auknum fjölda kvenna í stjórnum. Auður Arna segir frá því með hvaða hætti konurnar voru valdar til stjórnarsetu. Hún svarar því hvort sérstakir listar þar sem konur hafa boðið sig fram til stjórnarsetu, hafi verið notaðir með kerfisbundnum hætti af þeim sem velja fólk til setu í stjórnum. Hún greinir jafnframt frá því hvað er lagt til grundvallar þegar nýjar konur eru valdar til stjórnarsetu.

Rannsókn HR í samstarfi við Samtök Atvinnulífsins, Kauphöllina og Jafnréttisstofu

Niðurstöður rannsóknar HR sem Jafnréttisstofa, SA og Kauphöllin styrktu sýnir að nokkur viðsnúningur hefur orðið í viðhorfum til kynjakvóta sérstaklega meðal kvenna og eldri karla en ungir karlmenn eru enn mjög mótfallnir kvótanum. Samkvæmt rannsókninni hefur afstaða kvenna til löggjafarinnar um kynjakvóta orðið jákvæðari, eða farið úr 58 prósent í 77 prósent. Afstaða karla til lög-gjafarinnar hefur þá einnig farið batnandi, eða úr 33 prósent í 42 prósent, en eru þó neikvæðari í afstöðu sinni en konur. Niðurstöður benda einnig til að umræður á stjórnarfundum hafi einnig breyst frá setningu laganna. Umræðan sé nú tekin frá ólíkari sjónarhornum. Fyrirtækjabragurinn er líka að breytast og voru karlar og konur almennt sammála um það.

< TIL BAKA