Morten Huse er prófessor við viðskiptaháskólann í Osló auk þess sem hann er með stöðu við Witten/Herdecke háskólann í Þýskalandi. Huse er einn helsti fræðimaður samtímans um stjórnarhætti fyrirtækja og kynjakvóta.

Hann var staddur á Íslandi í desember 2014 og hélt erindi á morgunverðarfundi þar sem val á stjórnarmönnum á tímum kynjakvóta, var til umræðu. Erindi hans er að finna hér

Í viðtalinu ræðir Huse um tilgang norsku laganna um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja. Hann ræðir áhrif laganna á samfélagið og á einstök fyrirtæki.

Hann greinir frá helstu gagnrýni á norsku löggjöfina. Einnig segir hann frá því hvernig norsku lögin um kynjakvóta hafi haft áhrif á viðhorf til laga um kynjakvóta á heimsvísu.

Huse talar jafnframt um megin tilgang og markmið stjórna og þá virðisaukningu sem mikilvægt sé að störf stjórna hafi í för með sér.

Löggjöf um kynjakvóta í Noregi hefur skilað sér í töluverðum fjölda kvenna með reynslu af stjórnarsetu en Huse bendir á að aukinn fjöldi kvenna hafi þó ekki skilað sér með kvenstjórnenda í norskum fyrirtækjum, eins og búist hafi verið við.

Hann fjallar um félagslegt réttlæti í tengslum við rök fyrir auknum hlut kvenna í stjórnum fyrirtækja og ástæður þess að þessi rök hafi ekki átt upp á pallborðið í viðskiptalífinu.

Hann ræðir einnig um umræðuna um fjölbreytileika og áhrif hennar á umræðuna um kynjakvóta. Að lokum ræðir Huse um framtíðina og næstu skref í rannsóknum sínum tengdum kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja.

< TIL BAKA